Sumarpóstur til félagsmanna
Sumarið er komið til okkar og búin að vera geggjuð stemning í klúbbnum. Fólk að hjóla, leika sér, keppa og ná árangri og allt þar á milli. Virkilega gaman að sjá gleðina í hópnum okkar. Okkur í stjórninni langaði að henda á ykkur línu og fara yfir það sem er að gerast á næstunni ásamt því að kynna sumarútsölu aldarinnar í vefverslun Tinds.
Ágúst og september eru stórir hjá okkur og nóg um að vera bæði í leik og keppni.
Í ágúst verður áskorun að vanda sem verður kynnt á næstu dögum.
Fjölskyldudagur Tinds verður haldinn aðra vikuna í ágúst og er þar tækifæri fyrir Tindara á öllum aldri að koma saman og leika sér á hjólinu.
10. ágúst er Gran Fondo númer 4 á dagskrá.
17. ágúst verða Reykjavíkurhringir Tinds haldnir í samstarfi við Hafnartorg. Unnið er að útfærslu og leyfum fyrir viðburðinn en búast má við geggjuðu veðri og gleði fyrir alla en til stendur að opna viðburðinn fyrir öllu hjólreiðafólki landsins.
31. ágúst er XCM mótið okkar á Hólmsheiðinni góðu, frábær fjallahjóla áskorun fyrir alla á geggjaðri braut.
14. september er Enduroið okkar, fengum frábærar undirtektir í AM hópnum þegar leitað var að fólki til að koma að því. Einhugur er því að halda mótið eftir að tvísýnt var mótahald í enduro í sumar.
15. september er svo Krónumótið sem er uppáhaldsmót allra og verður það í Öskjuhlíðinni að vanda
Haustið býður síðan upp á aðalfund og árshátið sem að venju verður partý ársins.
Inniþjálfun verður einnig á sínum stað í vetur og er farið að huga að fyrirkomulagi á henni og eru allar ábendingar þar um vel þegnar.
Eins og sést þá er dagskráin þétt og nóg að gera. Við þurfum því að leita til þín kæri félagsmaður að stíga upp og hjálpa okkur við að láta þetta metnaðarfulla plan ganga upp. Eins og áður sagði voru mjög góðar undirtektir í AM hópi Tinds þegar kom að Enduro mótinu og þótti okkur ótrúlega vænt um að finna þær.
En við þurfum meiri hjálp en það og viljum við því leita til ykkar með að gefa af ykkur í einn viðburð og leggja þannig til ómetanlegan liðsstyrk í að halda starfinu okkar eins öflugu og verið hefur því eins og svo oft hefur verið sagt þá eruð þið klúbburinn, hjartað og sálin í félaginu og gerið það að því sem það er í dag, öflugasta hjólreiðafélag landsins.
Auk þess er vert að minna á að þeir sem eru sjálfboðaliðar á minnst tveimur viðburðum fá frítt á árshátíðina í haust…
Sumarútsalan sem rætt var um að ofan er hafin í vefverslun Tinds Vefverslun Tinds
þar er nú:
60% af öllum Rapha treyjum, vestum, aero suits, time trial suits.
30% af Castelli Perfetto jökkum og Thermal treyjum.
25% afsláttur af öllu öðru Rapha dótinu okkar.
Við ætlum að fara í nýtt kitt í byrjun næsta árs og er undirbúningur fyrir það kominn á fullt. Við viljum því losa þann lager sem við eigum á gjafverði og er þetta tækifæri til að eignast frábæran hjólafatnað á verði sem er í raun nánast gjafaverð.
Fyrir hönd stjórnar Tinds
Einar Gunnar